Janus Daði Smárason og Viggó Kristjánsson fóru fyrir liðum sínum þegar Göppingen vann nauman 34:32-sigur á Stuttgart í þýsku 1. deildinni í handknattleik karla í dag.
Janus skoraði sex mörk og lagði upp önnur þrjú fyrir Göppingern og Viggó gerði slíkt hið sama fyrir Stuttgart.
Andri Már Rúnarsson komst ekki á blað hjá Stuttgart í dag.
Í þýsku 2. deildinni voru Íslendingar einnig í eldlínunni.
Óðinn Þór Ríkharðsson átti til að mynda stórleik fyrir topplið Gummersbach þegar liðið vann góðan 37:35-útisigur á Coburg í dag.
Skoraði Óðinn sjö mörk fyrir Gummersbach. Elliði Snær Viðarsson skoraði tvö mörk fyrir liðið og lagði upp eitt mark til viðbótar.
Hákon Daði Styrmisson er frá út tímabilið vegna hnémeiðsla og Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar liðið.
Anton Rúnarsson skoraði þá eitt mark og lagði upp tvö þegar lið hans Emsdetten steinlá, 26:34, fyrir Ludwigshafen í dag.