Teitur og félagar fyrstir til að leggja Magdeburg

Teitur Örn Einarsson í leik með íslenska landsliðinu fyrr á …
Teitur Örn Einarsson í leik með íslenska landsliðinu fyrr á þessu ári. Ljósmynd/HSÍ

Flensburg gerði sér lítið fyrir og varð í dag fyrsta liðið til þess að bera sigurorð af toppliði Magdeburg í þýsku 1. deildinni í handknattleik karla.

Fyrir leikinn hafði Magdeburg unnið alla 16 leiki sína í deildinni til þessa en í dag þurfti liðið að játa sig sigrað.

Flensburg vann að lokum 30:27-sigur og voru Teitur Örn Einarsson hjá Flensburg og Ómar Ingi Magnússon hjá Magdeburg afar atkvæðamiklir.

Teitur Örn skoraði fjögur mörk og lagði upp önnur þrjú fyrir Flensburg.

Ómar Ingi skoraði sex mörk og lagði upp önnur fimm fyrir Magdeburg. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði eitt mark og lagði upp annað fyrir liðið.

Magdeburg er áfram á toppi deildarinnar þrátt fyrir tapið og Flensburg smeygir sér upp í annað sætið, þar sem liðið er fimm stigum á eftir toppliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert