Alexander valinn íþróttamaður Vals

Alexander Örn Júlíusson með verðlaunabikarana eftir að hann var valinn …
Alexander Örn Júlíusson með verðlaunabikarana eftir að hann var valinn íþróttamaður Vals árið 2021. Ljósmynd/Valur

Alexander Örn Júlíusson, fyrirliði Íslands- og bikarmeistara Vals í handknattleik karla, hefur verið valinn íþróttamaður ársins 2021 hjá félaginu.

Á heimasíðu Vals segir að niðurstaða sjö manna dómnefndarinnar hafi verið einróma.

„Þetta er mikill heiður og ég er stoltur af þessari viðurkenningu. Mér þykir ákaflega vænt um félagið og hef fylgst með valinu á íþróttamanni Vals frá því ég var barn.

 Þetta er því sérstök stund fyrir mig og fjölskylduna. Svo má ekki gleyma því að þetta er einnig viðurkenning fyrir liðið sem náði frábærum árangri í ár og stefnir enn hærra á næsta ári,“ sagði Alexander Örn í samtali við heimasíðu Vals.

Við valið á íþróttamanni Vals var við sama tækifæri veittar viðurkenningar fyrir efnilegasta íþróttafólk félagsins í öllum greinum hjá körlum og konum.

Knattspyrnudeild útnefndi Birki Heimisson efnilegasta knattspyrnumanninn og Ídu Marín Hermannsdóttur efnilegustu knattspyrnukonuna.

Handknattleiksdeildin valdi Einar Þorstein Ólafsson efnilegasta handknattleiksmanninn og Elínu Rósu Magnúsdóttur kvennamegin.

Hjá körfuknattleiksdeildinni var Ástþór Atli Svalason valinn efnilegastur og Sara Líf Boama efnilegust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert