Landsliðskonan Díana Dögg Magnúsdóttir var jafnmarkahæst í liði Sachsen Zwickau þegar liðið gerði 19:19-jafntefli við Bad Wildungen í þýsku 1. deildinni í handknattleik kvenna í dag.
Díana Dögg skoraði þrjú mörk fyrir Zwickau líkt og þrír liðsfélagar hennar.
Langmarkahæst í leiknum var þó Munia Smits sem skoraði sjö mörk fyrir Bad Wildungen.
Bæði lið eru í harðri fallbaráttu þar sem Zwickau er í 12. sæti með fimm stig og Bad Wildungen í 13. sæti með aðeins þrjú stig, en 14 lið eru í deildinni.