„Ég hefði viljað sjá okkur gera meira á mótinu,“ sagði Kristjana Arnarsdóttir, íþróttafréttamaður á RÚV, í íþróttauppgjöri Dagmála, frétta- og menningarlífsþáttar Morgunblaðsins, þegar rætt var um gengi íslenska karlalandsliðsins í handknattleik á HM í Egyptalandi í janúar 2021.
Íslenska liðið vann tvo leiki af sex á mótinu og endaði í 20. sæti sem er versti árangur Íslands á HM frá upphafi.
Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands, var sérstaklega ósáttur með gagnrýnina sem liðið fékk á sig á mótinu hjá þeim Arnari Péturssyni og Loga Geirssyni en þeir voru sérfræðingar RÚV meðan á mótinu stóð.
„Við erum með leikmenn núna sem eru á hátindi ferilsins og það þýðir ekki að fara í neinn feluleik með það hvers vegna við erum ekki svona eða hinsegin,“ sagði Kristjana sem var umsjónarmaður HM-stofunnar á RÚV.
„Landsliðsþjálfarinn var ekki sáttur með þá gagnrýni sem liðið fékk á sig og maður spyr sig alveg hvort hann eigi yfirhöfuð að vera velta sér upp úr því sem sérfræðingar RÚV segja í myndverinu,“ sagði Eva Björk Benediktsdóttir á RÚV.
„Gummi Gumm á aðeins inni á afsláttarkortinu vegna fyrri árangurs með liðið en við þurfum að sjá liðið stíga næsta skref á komandi stórmóti,“ bætti Hörður Snævar Jónsson, íþróttafréttastjóri hjá Torgi, við.
Áramótaþátt og íþróttauppgjör Dagmála í heild sinni má nálgast með því að smella hér.