Þrír Íslendingar tilnefndir í Þýskalandi

Ómar Ingi Magnússon var kjörinn íþróttamaður ársins fyrir áramót.
Ómar Ingi Magnússon var kjörinn íþróttamaður ársins fyrir áramót. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslensku landsliðsmennirnir Ómar Ingi Magnússon og Bjarki Már Elísson eru á meðal tíu leikmanna sem koma til greina sem leikmaður ársins í þýska handboltanum. Þá er Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari Þýskalands, tilnefndur sem persónuleiki ársins.

Handball-world stendur fyrir kosningunni. Þeir Sander Sagosen, Niklas Weller, Johannes Golla, Marcel Schiller, Dominik Mappes, Niklas Landin, Jim Gottfridsson og Hans Lindberg koma einnig til greina sem handboltamaður ársins.

Ómar, sem var kjörinn íþróttamaður ársins á síðasta ári, var markahæsti leikmaður þýsku 1. deildarinnar á síðustu leiktíð og hefur verið í lykilhlutverki hjá Magdeburg, toppliði deildarinnar, á þessari leiktíð.

Bjarki er aðalmarkaskorari Lemgo og hefur verið á meðal markahæstu leikmanna þýsku deildarinnar undanfarin ár.

Alfreð tók við þjálfun þýska landsliðsins árið 2020 en hann missti eiginkonu sína, Köru Guðrúnu Melsted, á síðasta ári og tjáði sig opinskátt um fráfall hennar í samtali við Bild.

Kosningin stendur yfir allan janúarmánuð og má nálgast hana hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert