Allir þeir leikmenn íslenska karlalandsliðsins í handknattleik sem fóru í einkennasýnatöku vegna kórónuveirunnar í gær fengu neikvæða niðurstöðu úr þeim.
„Allur hópurinn okkar sem fór í PCR próf í dag fékk neikvæða niðurstöðu síðdegis. Nú eru menn komnir í búbblu á Grand hótel.
Okkur var skiljanlega mjög létt við þessi tíðindi,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, í samtali við Handbolta.is í gærkvöldi.
Í Morgunblaðinu í dag er rætt nánar við Róbert Geir þar sem hann greinir frá því að þrír leikmenn sem smituðust á milli jóla og nýárs séu enn í sóttkví og einangrun.
Tveir þeirra séu í sóttkví og munu losna úr henni núna í upphafi vikunnar og sá sem er í einangrun muni losna úr henni um miðja viku.
Um miðja viku megi því vænta þess að allir 20 leikmennirnir í íslenska landsliðshópnum geti tekið þátt á æfingum liðsins, en fyrsta æfing þess í undirbúningi sínum fyrir EM í Ungverjalandi og Slóvakíu síðar í mánuðinum fór fram í Víkinni í morgun.