Bjarki Már vill spila í Meistaradeildinni

Bjarki Már Elísson er á förum frá Lemgo.
Bjarki Már Elísson er á förum frá Lemgo. mbl.is/Unnur Karen

„Þetta var erfið ákvörðun að taka og maður var búinn að liggja lengi yfir þessu,“ sagði Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður Íslands í handknattleik og leikmaður Lemgo í þýsku 1. deildinni, í samtali við mbl.is í dag.

Bjarki mun yfirgefa þýska félagið að tímabili loknu þegar samningur hans rennur út en hann hefur leikið frábærlega með liðinu frá því hann kom frá Füchse Berlín árið 2019. Hann varð markakóngur deildarinnar 2019-20 og varð bikarmeistari með liðinu síðasta vor.

„Það verða miklar mannabreytingar hjá félaginu í sumar og stærsta breytingin verður brotthvarf Jonathans Carlsbogård frá félaginu. Hann hefur verið algjör lykilmaður hjá félaginu undanfarin ár og það verður mjög erfitt að fylla hans skarð. Ég og konan mín komust því að þeirri niðurstöðu að þetta væri rétti tímapunkturinn til þess að fara annað og prófa eitthvað alveg nýtt.

Það hefur gengið mjög vel hjá mér persónulega  hjá Lemgo en það er mitt mat að það sé búið að kreista nánast allt sem hægt er að kreista út úr liðinu. Við urðum bikarmeistarar í fyrra sem var frábært en ég er orðinn 31 árs gamall og mig langar að komast aftur að hjá liði sem er að berjast um bikara á öllum vígstöðum og það vó þyngst í minni ákvörðun,“ sagði Bjarki.

Bjarki hefur leikið í Þýskalandi frá árinu 2013 þegar hann gekk til liðs við B-deildarlið Eisenach frá HK.

„Ég er alveg opinn fyrir því að spila annarsstaðar en í Þýskalandi og ég er í raun opinn fyrir öllu. Ég hef aldrei spilað í Meistaradeildinni og það er eitthvað sem mig langar mikið til þess að prófa. Ef ég þarf að skipta um land til að gera það þá er ég opinn fyrir þeim möguleika. Eins og staðan er núna þá er ég ekki með neitt í hendi og við þurfum bara að bíða og sjá hvernig þetta þróast,“ bætti Bjarki Már við í samtali við mbl.is.

Bjarki Már er í íslenska landsliðshópnum sem er á leið …
Bjarki Már er í íslenska landsliðshópnum sem er á leið á Evrópumeistaramótið í Ungverjalandi og Slóvakíu sem hefst í janúar. mbl.is/Unnur Karen
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert