Handknattleiksmaðurinn Bjarki Már Elísson mun yfirgefa þýska 1. deildarliðið Lemgo þegar yfirstandandi leiktímabili lýkur.
Bjarki Már, sem leikur í vinstra horni, kom til Lemgo frá Füchse Berlín sumarið 2019 og hefur síðan þá raðað inn mörkunum fyrir liðið. Hann er sem stendur markahæsti leikmaður þýsku 1. deildarinnar með 116 mörk á tímabilinu.
Samningur Bjarka Más, sem verður 32 ára á árinu, við Lemgo rennur út í sumar og vill hann fá nýja áskorun.
„Ákvörðunin um að yfirgefa félagið undir lok tímabilsins var í raun ekki auðveld fyrir mig, því Lemgo hefur verið mér afar kært. En á þessum tímapunkti á ferli mínum langar mig að takast á við nýja áskorun,“ sagði Bjarki Már í samtali við heimasíðu Lemgo.
Hann lagði þar áherslu á hve vel honum hefur ávallt liðið í Lemgo. „Við höfum upplifað svo margt saman hérna, erfiða tíma eins og kórónuveirufaraldurinn en líka margar frábærar upplifanir eins og að vinna bikarinn og Evrópudeildina.
Ég vil nota tækifærið og þakka aðdáendum, starfsmönnum á skrifstofunni, liðinu og sérstaklega Florian Kehrmann [aðalþjálfara Lemgo], sem veitti mér ótrúlega mikið traust. Ég mun að sjálfsögðu halda áfram að gefa allt sem ég á til loka tímabilsins og ég vona að við getum fagnað fallegum sigrum saman,“ sagði Bjarki Már.
Forsvarsmenn Lemgo sjá á eftir Bjarka „Auðvitað hörmum við mjög að Bjarki hafi viljað fara frá Lemgo og reyndum við allt sem við gátum til þess að halda honum, en á endanum ákvað hann að yfirgefa félagið.
Við vitum allir hvað við áttum og höfum átt í Bjarka, sem naut líka góðs af leikkerfi okkar eftir að hafa flutt frá Berlín og meira en tvöfaldaði fjölda marka sinna hjá okkur og varð meira að segja markahæstur tímabilið 2019/2020.
Það er auðvitað synd að hann sé að fara frá okkur í sumar en því miður er það stundum þannig í atvinnumannabolta þar sem maður er alltaf í samkeppni við önnur, efnahagslega mjög sterk félög,“ sagði Jörg Zereike, framkvæmdastjóri Lemgo, í samtali við heimasíðu félagsins.
Lemgo hefur þegar samið við svissneska hornamanninn Samuel Zehnder, sem mun fylla skarð Bjarka Más þegar hann gengur til liðs við félagið næsta sumar.