Úrslitum hagrætt í Meistaradeildinni og Evrópudeildinni?

Ljósmynd/Eva Björk Ægisdóttir

Úrslitum í nokkrum leikjum í Meistaradeild Evrópu í handknattleik karla og kvenna og í Evrópudeild karla hefur verið hagrætt á yfirstandandi tímabili að því er sænski miðillinn Handbollskanalen greinir frá.

Hagræðingarnar snúa að veðmálum á tiltekna leiki og úrslit þeirra. Þessu greindi Handbollskanalen frá í gær og kveðst hafa heimildir fyrir úr nokkrum ólíkum áttum.

Í annari grein sem Handbollskanalen birti í dag segir að eitt ónefnt sænskt félag hafi staðfest það við miðilinn að það hafi tilkynnt Evrópska handknattleikssambandinu, EHF, um hagræðingu úrslita í Evrópukeppni í haust.

EHF hefur brugðist við fréttaflutningi Handbollskanalen með yfirlýsingu þar sem segir að engin sönnunargögn séu fyrir hendi um hagræðingu úrslita í keppnum á vegum sambandsins.

„EHF hefur ekki nokkra þolinmæði fyrir hagræðingu úrslita. Hagræðing úrslita er ekki ásættanleg í nokkurri íþrótt og þegar kemur að keppnum á vegum EHF er um að ræða alvarlegt brot á grunngildum sambandsins, samþykktum og reglum.

Ef sönnunargögn eru til staðar munu þær manneskjur sem bera ábyrgð sæta refsingum og viðurlögum fyrir að hafa með einhverjum hætti auðgast með því að veðja á tiltekna hluta leikja eða úrslit leikja með ólöglegum hætti.

Hins vegar eru engin sönnunargögn til staðar um hagræðingu úrslita í leikjum sem hafa verið spilaðir í keppnum á vegum Evrópska handknattleikssambandsins,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu EHF.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert