Daníel Þór Ingason, leikmaður Balingen í Þýskalandi, hefur verið kallaður inn í A-landslið Íslands í handknattleik fyrir lokakeppni Evrópumótsins sem hefst í Ungverjalandi og Slóvakíu í næstu viku.
Daníel kemur í staðinn fyrir Svein Jóhannsson sem meiddist á æfingu í gær en Guðmundur Þ. Guðmundsson staðfesti þetta við Vísi fyrir stundu.
Daníel hefur verið viðloðandi landsliðið undanfarin ár og skorað níu mörk í 34 leikjum. Hann er rétthent skytta en hefur fyrst og fremst verið varnarmaður í landsliðinu og kemur sem slíkur í stað línumannsins og varnarmannsins Sveins. Daníel lék áður með Haukum og síðan Ribe-Esbjerg í Danmörku.