Kórónuveiran hefur skotið upp kollinum í herbúðum portúgalska karlalandsliðsins í handknattleik en liðið undirbýr sig nú fyrir Evrópumeistaramótið sem hefst í næstu viku í Ungverjalandi og Slóvakíu.
Portúgalar, sem leika í B-riðli keppninnar ásamt Íslandi, áttu að taka þátt í fjögurra liða æfingamóti í Sviss í aðdraganda lokakeppni EM en þeir þurftu að draga sig úr keppni vegna smitanna.
Mótahaldarar í Sviss ákváðu að lokum að aflýsa mótinu eftir að Svartfjallaland þurfti einnig að draga sig úr keppni vegna fjölda smita.
Portúgalar hefja leik á EM hinn 14. janúar þegar liðið mætir Íslandi í Búdapest.