Til stendur að stytta einangrun leikmanna sem greinast með kórónuveiruna í aðdraganda Evrópumóts karla í handknattleik úr fjórtán dögum í fimm daga. Það er Handball-Planet sem greinir frá þessu.
Fjórtán daga einangrun myndi gera það að verkum að þeir leikmenn sem smitast á næstu dögum gætu því misst af öllu mótinu, fari svo að lið þeirra komast ekki áfram í milliriðla. Þá myndu þeir leikmenn, sem greinast á mótinu sjálfu, þurfa að fara í tíu daga einangrun.
Þessar nýju reglur fóru ekki vel í handknattleikshreyfinguna og hafa margar þjóðir aflýst vináttulandsleikjum sínum í aðdraganda mótsins af ótta við að smitast af veirunni.
Nýjar reglur evrópska handknattleikssambandsins munu samkvæmt fréttinni kveða á um að leikmenn sem greinast með veiruna þurfi að fara í fimm daga einangrun og þá þurfa þeir að skila af sér tveimur neikvæðum PCR-prófum áður en þeir fá að snúa aftur á keppnisvöllinn.
Evrópumót karla hefst hinn 13. janúar í Ungverjalandi og Slóvakíu en Ísland er í B-riðli keppninnar ásamt Portúgal, Ungverjalandi og Hollandi og leikur í Búdapest.