Annika Wiel Hvannberg, ein besta handknattleikskona í sögu Svíþjóðar, heldur af stað til Íslands í dag þar sem hún mun flytja búferlum til landsins og verður búsett hérlendis næsta hálfa árið.
Annika, sem er 43 ára gömul, var útnefnd besta handknattleikskona Svíþjóðar árið 2006 og var hluti af stjörnuliði EM sama ár.
Hún vann til silfurverðlauna á EM 2010 og tók þátt á tveimur Ólympíuleikum á ferlinum.
Annika er ekkja en eiginmaður hennar, íslenski bæklunarskurðlæknirinn Jónas Hvannberg, lést langt fyrir aldur fram árið 2013, þegar hann var aðeins 35 ára, í kjölfar skammvinnrar baráttu við illvígt ristilkrabbamein.
Saman eignuðust þau soninn Jack árið 2013, sama ár og Jónas lést, og flytur Annika til Íslands meðal annars með það fyrir augum að hann læri enn betri íslensku.
Annika og Jack halda af stað í dag með ferju frá Hirtshals í Danmörku, þaðan sem ferjan fer til Færeyja og kemur svo til hafnar á Seyðisfirði þann 11. janúar.
Mæðginin munu gista þar eina nótt áður en þau halda til Reykjavíkur þar sem Annika mun starfa sem kennari í hálft ár og Jack fara í skóla á sama tíma.
Hægt er að fylgjast með ævintýrum Anniku og Jacks á Íslandi hér.