Ekkert smit í íslenska hópnum

Allir leikmenn landsliðsins reyndust neikvæðir.
Allir leikmenn landsliðsins reyndust neikvæðir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í gær fóru allir leikmenn íslenska karlalandsliðsins í handknattleik ásamt starfsliði í einkennasýnatöku vegna kórónuveirunnar. Allir reyndust neikvæðir.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu Handknattleikssambands Íslands í dag.

Þar segir: „Strákarnir okkar ásamt starfsfólki landsliðsins sem dvelur saman í búbblu á Grand hótel þurftu að fara í PCR-próf í gær. EHF hefur sett þátttökuþjóðum EM í handbolta ákveðnar kröfur er varðar sóttvarnir áður en haldið er til keppni.

Einn liður í þeim kröfum eru reglubundin PCR-próf. Niðurstöður prófanna hafa allar skilað sér og eru strákarnir okkar og allt starfsfólk landsliðsins neikvætt.“

Evrópumeistaramótið í handknattleik í Ungverjalandi og Slóvakíu hefst þann 13. janúar næstkomandi og heldur íslenska liðið utan eftir helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert