„Maður er orðinn frekar spenntur þótt ekki sé alveg komið að mótinu. Manni finnst það alla vega því dagarnir eru lengi að líða. Menn eru klárir í þetta og það er augljóst. Æfingarnar eru að verða harðari og harðari,“ sagði Elliði Snær Viðarsson, landsliðsmaður í handknattleik, þegar Morgunblaðið ræddi við hann.
Landsliðið undirbýr sig nú hér heima fyrir EM í Ungverjalandi og Slóvakíu en fyrsti leikur Íslands er eftir viku. Elliði lék stórt hlutverk í miðri vörn íslenska liðsins á HM í Egyptalandi í fyrra. Lærði Elliði mikið á HM?
„Það er alveg óhætt að segja. Ég dró mikinn lærdóm af mótinu. Þetta var eldskírn fyrir mig en engin pressa á mér heldur. EM verður allt annað mót fyrir mig vegna þess að allt aðrar kröfur eru gerðar til mín á þessu móti heldur en því síðasta.“
Elliði varð 23 ára í nóvember og er á sínu öðru ári hjá Gummersbach í næstefstu deild í Þýskalandi. Elliði er á þeim aldri þar sem leikmenn geta tekið miklum framförum.
„Mér finnst ég hafa tekið miklum framförum í Þýskalandi. Ég hef unnið mikið í því að styrkja mig og hef komið mér betur fyrir í Þýskalandi en þar er spilaður aðeins öðruvísi handbolti en hér heima. Allir sem sjá mig spila vita að mér veitir ekki af fleiri kílóum og unnið er markvisst að því,“ segir Elliði.
Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag