Hætt hefur verið við vináttulandsleik Svíþjóðar og Hollands, sem Erlingur Richardsson þjálfar, í handknattleik karla sem átti að fara fram í Alingsås í Svíþjóð í dag vegna smita innan herbúða beggja liða.
Bæði lið undirbúa sig nú fyrir EM sem hefst í næstu viku.
Þau mættust í vináttulandsleik á fimmtudagskvöld þar sem Svíar unnu 34:30 en nú er ljóst að ekkert verður af síðari leiknum, sem átti að hefjast klukkan 15 í dag.
Hætt var við tvo vináttulandsleiki Íslands gegn Litháen, sem áttu að fara fram í gærkvöldi og á morgun, vegna þess að litháíski hópurinn treysti sér ekki til þess að ferðast til Íslands vegna kórónuveirufaraldursins.
Því leikur Ísland enga vináttuleiki fyrir EM. Holland er á meðal þeirra liða sem íslenska liðið er með í riðli sínum.