„Þetta verkefni leggst ótrúlega vel í okkur og sjarminn yfir Evrópukeppninni er öðruvísi en gengur og gerist þannig að tilhlökkunin í leikmannahópnum er mikil,“ sagði Sunna Jónsdóttir, leikmaður kvennaliðs ÍBV í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið.
ÍBV mætir Sokol Pisek frá Tékklandi í sextán liða úrslitum Evrópubikarsins í dag klukkan 15 og á morgun klukkan 13 en báðir leikirnir fara fram í Vestmannaeyjum.
„Það er mjög þægilegt fyrir okkur að báðir leikirnir fara fram í Eyjum og þetta hentar okkur vel því að við erum með nokkra útlendinga í hópnum sem eru nýkomnir aftur til Vestmannaeyja eftir jólafrí. Það hefði verið erfitt og leiðinlegt fyrir þær að þurfa að rífa sig upp fyrir langt og erfitt ferðalag, sérstaklega í miðjum kórónuveirufaraldri.
Við erum þess vegna mjög ánægðar og þakklátar fyrir það að spila í Eyjum. Heimavöllurinn hefur alltaf verið einn af okkar styrkleikum, líka núna þrátt fyrir að það verði minna um áhorfendur vegna faraldursins, og okkur líður best í Eyjum,“ sagði Sunna.
ÍBV sló grísku liðin PAOK og Panorama út í 2. og 3. umferð keppninnar en Eyjaliðið lék báða leikina við PAOK í Grikklandi en báða við Panorama í Eyjum.
Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag.