„Ólýsanlega sætt að vinna leikina svona“

Hafdís Renötudóttir einbeitt á svip í dag.
Hafdís Renötudóttir einbeitt á svip í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Hafdís Renötudóttir, markvörður Fram í Olísdeildinni í handbolta, var besti maður vallarins þegar Fram lagði KA/Þór 21:20 í hörkuleik á Akureyri. Hafdís varði jafnt og þétt allan leikinn og stóð uppi með 22 vörslur í leikslok.

Fram var yfir allan leikinn þar til KA/Þór jafnaði í 16:16. Undir lokin komst svo KA/Þór yfir í eina skiptið í leiknum 20:19. Fram skoraði hins vegar tvö síðustu mörkin og fagnaði sigri.  Þótti við hæfi að fá Hafdísi í stutt spjall eftir leik. 

Sæl Hafdís. Maður myndi ætla að svona jafnir og spennandi leikir væru skemmtilegustu leikirnir, að vinna með einu og verja öll þessi skot. Þú hlýtur að vera sammála mér. 

Skælbrosandi og dálítið hátt uppi svaraði Hafdís: „Stærstu leikirnir eru skemmtilegastir og þá er geggjað að standa sig vel og vinna. Það er líka ólýsanlega sætt að vinna leikina svona. Ég er þakklát fyrir vörnina í þessum leik. Stelpurnar spiluðu hana rosalega vel og það er ekkert eðlilega þægilegt að spila fyrir aftan þessa vörn. Þegar hún er svona frábær og það gengur svona vel þá kemst maður sjálfkrafa í gang og ég gæti ekki verið ánægðari.“ 

Þið voruð yfir allan fyrri hálfleikinn og langt fram í þann seinni. KA/Þór jafnar í þrígang og kemst svo yfir þegar stutt er eftir. Fer ekki hjartað að slá aðeins hraðar við svona aðstæður? Það munaði ekki miklu að KA/Þór næði að stela þessu af ykkur. 

„Sko 58. mínútan í þessum leik fer í bækurnar. Það er bara svo mikið stress og smá mótlæti á þessari mínútu og KA/Þór kemst yfir. Það sýnir samt hvað við erum sterkar að láta það ekki slá okkur út af laginu. Liðsheildin sá svo til þess að við náðum að vinna leikinn. Þessar tvær lokamínútur sýna þann styrkleika og liðsheild sem Fram er. Þetta var geggjaður liðssigur. 

Einhver lið hefðu einmitt ekki náð að klára leik í þessum aðstæðum, mikil stemning með KA/Þór og áhorfendur öflugir. 

„KA/Þór stelpurnar hætta aldrei og eru mjög sterkar. Við urðum að sýna sömu staðfestu og seiglu til að svara því. Þetta sýnir hvernig við erum byggðar og hvernig við höfum verið að æfa. Þetta skilar sér í leik sem þessum.“ 

Þið voruð titlalausar í fyrra. Það verður væntanlega annað uppi á teningnum í ár. 

„Það verður öðruvísi í ár. Það er markmið mitt að vinna titla og ég bara vona að allir séu á sömu línu. Ef við spilum svona áfram þá trúi ég að við náum því.“ 

Þið eigið svo einhverja leikmenn inni og missið afar sterkan leikmann út af eftir 40 mínútur með rautt spjald, eruð líka manni færri oft í leiknum en það beit ekkert á ykkur. 

„Þetta er svipað og í síðasta leik okkar hérna uppi í norðrinu. Þá vorum við oft manni færri en náðum sigri. Vörnin er lykillinn í þessu og með hana svona sterka þá sigrum við leikina“ sagði vígreifur markvörðurinn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert