Stjarnan gerði góða ferð í Origo-höllina á Hlíðarenda og vann 26:25-sigur á Val í Olísdeild kvenna í handbolta í dag. Lena Margrét Valdimarsdóttir skoraði sigurmarkið tæplega mínútu fyrir leikslok og tókst Val ekki að jafna.
Stjarnan byrjaði af gríðarlegum krafti og komst í 5:1 snemma leiks en Valskonur svöruðu og jöfnuðu í 5:5. Eftir það var mikið jafnræði út fyrri hálfleikinn en Stjarnan skrefinu á undan. Val tókst hinsvegar að jafna aftur fyrir hálfleik og var staðan í leikhléi 16:16.
Liðin skiptust á að vera með forystuna í jöfnum og spennandi seinni hálfleik en Stjarnan var með forystuna þegar mestu máli skipti og fagnaði góðum tveimur stigum.
Áðurnefnd Lena Margrét var markahæst hjá Fram með sjö mörk, Helena Rut Örvarsdóttir gerði sex og Eva Björk Davíðsdóttir fimm. Tinna Húnbjörg varði 15 skot í marki Stjörnunnar.
Hildigunnur Einarsdóttir skoraði mest hjá Val eða sjö mörk, Thea Imani Sturludóttir gerði sex og Lovísa Thompson, sem er komin aftur á völlinn eftir stutt frí, skoraði fjögur mörk.
Valur er áfram í öðru sæti með 16 stig, þremur stigum á eftir Fram og með leik til góða. Stjarnan er í fimmta sæti með tíu stig.