„Þess vegna er þetta hundsvekkjandi“ 

Aldís Ásta Heimisdóttir skýtur að marki Fram í dag.
Aldís Ásta Heimisdóttir skýtur að marki Fram í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs í handbolta, kom í viðtal eftir hörkuspennandi leik KA/Þórs og Fram í dag. Fram náði að landa sigri 21:20 eftir að hafa verið yfir nær allan tímann.

KA/Þór komst einu sinni yfir í leiknum þegar skammt var eftir. Tvær síðustu sóknir liðsins voru vægast sagt skrautlegar og þurfti Andri Snær því að horfa upp á lið sitt tapa þriðja leiknum í röð.  

Þetta var hörkuleikur. Þið voruð að elta allan leikinn en komust loks yfir þegar rúmar tvær mínútur voru eftir. Tvær síðustu sóknirnar voru hins vegar ekki góðar og því fór sem fór. Fyrir ykkur þá verður að segja að þetta hafi verið sorglegur endir í skemmtilegum og spennandi leik. 

„Það er hægt að segja að leikurinn hafi verið skemmtilegur og spennandi fyrir áhorfendur en gæðin voru ekki góð. Það mátti svo sem búast við slíku eftir svona langt hlé, fyrsta leik eftir pásu. Það var fullt af tæknifeilum og lélegum skotum hjá báðum liðum. Við áttum í rauninni ekki góðan dag og  eigum heilmikið inni á öllum sviðum, hvort sem það er í markvörslu, vörn, hraðaupphlaupum eða í uppstilltum sóknarleik. Þrátt fyrir það þá vorum við búin að koma okkur í góða stöðu til að vinna þennan leik þegar skammt var eftir og þess vegna er þetta hundsvekkjandi.“ 

Andri Snær Stefánsson ræðir við sitt lið í dag.
Andri Snær Stefánsson ræðir við sitt lið í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Þið áttuð undir högg að sækja lengi vel en á lokakaflanum gat í raun allt gerst. Þið voruð allt eins líkleg til að stela sigri. 

„Við vorum að elta allan leikinn og að berjast. Fram sýndi að þær eru ólseigar og skoruðu einhver mörk eftir að höndin var komin upp, svona stemningsmörk. Við héldum áfram og það vantaði lítið upp á. Við fengum góð tækifæri á að vinna en síðustu tvær sóknirnar voru slakar.“ 

Var eitthvað hik á mannskapnum þá, þegar þið sáuð fram á að öll vinnan myndi hugsanlega skila sigri? 

„Já, líklega. Við erum bara ekki alveg í taktinum okkar. Það verður bara að segjast eins og er. Við verðum bara að skoða  þetta vel því að við getum gert mikið mun betur. Þetta var orðið hægt og fyrirsjáanlegt, mikið keyrt inn á miðjuna, sem gerði Fram auðveldara fyrir. Möguleikarnir voru þarna í breiddinni en við nýttum þá ekki.“ 

Ert þú ekki maðurinn sem var fegnastur því þegar hlé var gert á mótinu yfir hátíðirnar. Þegar leið að jólum þá sást að tímabilið var búið að taka sinn toll með tveimur ferðum til Evrópu og liðið virtist punkterað. 

„Við vissum það að Evrópukeppnin hjá okkur myndi auka leikjaálagið. Pásan kom sér vel fyrir okkur. Liðsmenn voru orðnir þreyttir, bæði líkamlega og andlega, einnig meiddir og tæpir. Núna er bara spennandi að keyra þetta aftur í gang. Við spilum fimm leiki í janúar og mótið er rétt hálfnað. Við bætum okkar leik núna og eigum fullt af hlutum inni. Nú er það bara gamla klisjan, að taka einn leik í einu. Það er útileikur gegn HK næst og þar mætum við dýrvitlaus til leiks“ sagði Andri að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert