Færeyska handboltaliðið H71 gerði sér lítið fyrir og vann 39:38-útisigur á ZRK Naisa frá Serbíu í 16-liða úrslitum Evrópubikar kvenna í dag.
H71 frá Hoyvík er fyrsta færeyska liðið sem fer í 16-liða úrslit í Evrópukeppni og á nú fína möguleika á að fara áfram í átta liða úrslit en seinni leikur liðanna fer fram í Þórshöfn næstkomandi laugardag.
Landsliðskonan Maria Halsdottir Weyhe fór á kostum í dag og skoraði 15 mörk. Það er þó ekki persónulegt met því hún skoraði 17 mörk gegn Spono Nottwil frá Sviss í síðustu umferð. Maria er aðeins 21 árs.
Færeyska liðið fór illa með Cair-Skopje frá Norður-Makedóníu í 1. umferð keppninnar og vann samanlagðan sigur 78:53. Næst tók liðið á móti Spono Nottwil frá Sviss og hafði betur samanlagt 65:57.
ÍBV er komið í átta liða úrslit keppninnar eftir tvo sigra á Sokol Písek frá Tékklandi í Vestmannaeyjum um helgina.