Tileinka Þórínu sigurinn

Aníta Björk Valgeirsdóttir sækir að marki Sokol Pisek í dag.
Aníta Björk Valgeirsdóttir sækir að marki Sokol Pisek í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Sigurður Bragason, þjálfari meistaraflokks kvenna hjá ÍBV, var ánægður með að vera kominn með lið sitt í 8-liða úrslit Evrópubikarsins í handknattleik.

Hann vill helst fá að fara með liðið sitt til Spánar í 8-liða úrslitunum en líkur eru á að tvö spænsk lið verði í hattinum þegar dregið er mánudaginn 17. janúar. Leiknum í dag lauk með 33:29  sigri en samtals vann ÍBV einvígið með ellefu mörkum.

Leikmenn ÍBV tileinkuðu Þórínu Ottoman Baldursdóttur sigurinn en hún var bráðkvödd 3. janúar á heimili sínu í Vestmannaeyjum. 

Ekki planið að fara svona langt

„Ég er ánægðastur með hvað ég gat rúllað hópnum mikið, ég gat gefið öllum töluverðan spiltíma. Þær komu allar inn á í fyrri hálfleik nema Hanna, en hún er ekki alveg klár. Þetta var góður skóli fyrir alla og fór í reynslubankann hjá einhverjum 14 stelpum.“

Sigurður Bragason á hliðarlínunni í fyrri leiknum í gær.
Sigurður Bragason á hliðarlínunni í fyrri leiknum í gær. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Sigurður var spurður að því hvernig hafi verið lagt upp með að nýta Evrópukeppnina.

„Það var ekki planið að fara svona langt, við ætluðum bara að leyfa öllum að prófa. Ég er samt keppnis og Grétar (formaður handknattleiksráðs) er það líka, þannig auðvitað viljum við vinna. Við erum á leið í fjórðu umferð og þetta er dýrt, en núna erum við ekki bara í þessu til að vera með. Stelpurnar eru líka algjörlega í þessu, ég er með serbneska landsliðskonu, þrjár íslenskar landsliðskonur, tvo Pólverja og Svía, þetta eru allt stelpur sem ætla sér í næstu umferð. Það er komin svoleiðis hugsun sem færir þetta á næsta stig, en það er það sem við viljum. Við höfum talað um þetta með kvennaboltann undanfarin ár og þetta er talandi dæmi um hvað við erum að gera í kvennaboltanum.“

Heppnar með drátt

„Það hafa dunið á okkur mikil meiðsli, ömmur tveggja hjá okkur létust, önnur úr Covid, amma Mariju sem var í miklu sjokki og þurfti að fara heim. Þetta róterar öllum æfingum hjá okkur, en þetta er að byrja aftur hjá okkur og við höfum margt að sanna. Við erum með tvo sigra af sjö, en við fáum tækifæri til að leiðrétta það. Deildin er ekki léleg, þetta eru ekki léleg lið sem við erum að tapa á móti, deildin er líka góð. Ég ætlaðist ekki til að vera á toppnum en ég vildi vera ofar en þetta.“

Lina Cardell fer inn úr horninu í dag.
Lina Cardell fer inn úr horninu í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Sigurður var spurður hvort þetta tékkneska lið væri það slakasta sem liðið hafi mætt í Evrópubikarnum þetta tímabilið, hann segir ekki.

„Nei, það finnst mér ekki, það vantaði besta manninn þeirra sem sat uppi í stúku. Mér fannst seinna gríska liðið sem við mættum vera verra en þetta, PAOK sem við mættum í fyrstu umferðinni er samt betra en þetta. Við höfum verið heppnar með drátt, KA/Þór mætti mjög erfiðu liði í fyrstu umferðinni sem er með tvær spænskar landsliðskonur. Í bikarkeppnum er þetta ákveðið lottó,“

Myndi elska að fara á Gran Canaria

Eitt spænskt lið hefur tryggt sig inn í 8-liða úrslitin ásamt ÍBV en enn eiga sex lið eftir að tryggja sér farseðilinn. Það er þó líklegt að annað spænskt lið fylgi og ásamt þeim líklegt að það verði úkraínskt og serbneskt lið í boði. Hver er draumadrátturinn?

Harpa Valey Gylfadóttir sækir að marki tékkneska liðsins.
Harpa Valey Gylfadóttir sækir að marki tékkneska liðsins. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Spurningin þín segir allt sem segja þarf, ég nenni ekki til Úkraínu, en ég væri alveg til í að fara til Serbíu, við erum með Serba í liðinu og ég hef aldrei komið þangað. Þetta er samt no-brainer, ég vil Spán og taka fimm daga þar á kostnað Grétars. Það eru samt bestu liðin, vill maður vera heppinn með drátt einu sinni enn og fara í undanúrslit eða fara í erfitt verkefni og vera á Spáni? Ég vona að það verði Spánn en ég nenni ekki til Úkraínu, það er líka stríðsástand þar og ég nenni því ekki,“ sagði Sigurður sem hefur væntanlega mikið pælt í næsta ferðalagi.

ÍBV lék fyrst tvo leiki í Grikklandi en næstu tvær umferðir hafa verið leiknar einungis hér í Vestmannaeyjum, finnst Sigurði líklegt að báðir leikir verði leiknir á sama stað í næstu umferð?

Þóra Björg Stefánsdóttir með boltann gegn Sokol Pisek.
Þóra Björg Stefánsdóttir með boltann gegn Sokol Pisek. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Tékkarnir vildu koma hingað og gerðu okkur tilboð, þeir vildu koma til Íslands og hafa skemmt sér konunglega, þeim finnst þetta æðislegt. Þetta var ódýrari pakki fyrir okkur, þegar við erum komin í 8-liða úrslitin þá spyrja liðin kannski ekkert um þetta og vilja bara spila heima og að heima, það er samt dýrast. Ég held að það verði alltaf báðir leikirnir okkar úti eða báðir leikirnir okkar heima, en ég vil fara til Spánar, það er möguleiki að fara á Gran Canaria, ég myndi elska það.“

Þórína Ottoman Baldursdóttir, einn af dyggustu stuðningsmönnum ÍBV, féll frá 3. janúar hér í Vestmannaeyjum og tók Sigurður fram að hann og hans lið vilji tileinka henni sigurinn. „Við tileinkum sigurinn Þórínu og stöndum með fjölskyldunni hennar á þessum erfiðu tímum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert