Andrea Jacobsen átti flottan leik þegar lið hennar, Kristianstad vann 23:21 sigur gegn slóvakíska liðinu Dunajska Streda í Evrópubikar kvenna í handbolta.
Leikurinn var fyrri leikur liðanna í 16-liða úrslitum keppninnar og var sænska liðið þremur mörkum undir þegar sex mínútur voru eftir af leiknum. Þá tóku Andrea og liðsfélagar hennar sig til og skoruðu fimm síðustu mörk leiksins.
Andrea skoraði fjögur mörk í leiknum og var næst markahæst í liði Kristianstad sem fer með tveggja marka forystu inn í seinni leikinn, sem fer fram strax á morgun.