Rakel Dögg Bragadóttir hefur látið af störfum sem þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar í handknattleik. Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í kvöld.
Rakel Dögg, sem er 35 ára gömul, tók við Stjörnuliðinu árið 2020 en liðið endaði í fimmta sæti deildarinnar undir hennar stjórn á síðustu leiktíð.
„Rakel hefur, eins og við vitum, átt frábæran feril sem leikmaður og hefur unnið fjöldan allan af titlum,“ segir í tilkynningu Garðbæinga.
„Starfsfólk félagsins, stjórnarmenn, leikmenn, stuðningsmenn og sjálfboðaliðar þakka Rakel fyrir sín störf og óska henni góðs gengis í framtíðinni,“ segir ennfremur í tilkynningunni.
Stjarnan er í fimmta sæti deildarinnar með 10 stig eftir tólf leiki, einu stigi minna en Íslandsmeistarar KA/Þórs sem eru í fjórða sætinu.