Barein, undir stjórn Arons Kristjánssonar, skoraði 46 mörk í fyrsta leik sínum í Asíumóti karla í handknattleik sem hófst í Sádi-Arabíu í dag.
Barein mætti Víetnam og hafði mikla yfirburði, sérstaklega í fyrri hálfleik, en staðan að honum loknum var 26:5. Lærisveinar Arons slökuðu aðeins á í seinni hálfleiknum en lokatölur urðu 46:14.
Reiknað er með að Barein vinni sinn riðil afar auðveldlega en hin tvö liðin í honum eru Úsbekistan og Hong Kong. Úsbekistan vann leik þeirra í dag, 28:24.
Tvö önnur lið skoruðu fjörutíu mörk í fyrstu leikjum dagsins. Suður-Kórea lék sér að Singapúr, 40:9, og Kúveit vann Jórdaníu 42:31.