ÍBV vann Hauka í afar sveiflukenndum leik í úrvalsdeild kvenna í handknattleik, Olísdeildinni, í Vestmannaeyjum í dag.
Eyjakonur voru hreinlega ekki mættar til leiks þó sannarlega væri búið að flauta leikinn á því Haukar kafsigldu þær í upphafi leiks er þær komust í 1:8 forystu.
ÍBV vaknaði loks af værum blundi og skoraði næstu þrjú mörk.
Staðan orðin 4:8 og eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn unnur Eyjakonur sig betur og betur inn í leikinn.
Svo vel náðu þær að vinna sig í leikinn að skömmu fyrir leikhlé jafnaði ÍBV metin og staðan í hálfleik 12:12.
Snemma leiks náðu Eyjakonur forystunni í fyrsta skipti í leiknum, 14:13, en miklar sveiflur áttu þá eftir að fara í hönd.
Haukar tóku leikinn yfir um skeið og komust fimm mörkum yfir, 17:22.
Eftir það raðaði ÍBV inn mörkunum á meðan Haukum var það nánast fyrirmunað og staðan orðin 27:23 þegar skammt lifði leiks.
Haukar tóku aðeins við sér í kjölfarið en Eyjakonur sigldu að lokum tveggja marka sigri, 29:27, í höfn.
Sunna Jónsdóttir var markahæst í liði ÍBV með níu mörk og Sara Odden var markahæst í liði Hauka með átta mörk.
Erla Rós Sigmarsdóttir kom sterk inn af varamannabekknum hjá ÍBV og varði sex af þeim 11 skotum sem hún fékk á sig, sem er 54,5 prósent markvarsla.