Aron Kristjánsson er kominn með lið Barein í undanúrslit Asíumótsins í handknattleik karla í Sádi-Arabíu eftir sigur á Írak í dag, 34:31.
Lærisveinar Arons hafa þar með unnið báða sína leiki í milliriðlinum, rétt eins og Íran, og liðin eru því örugg áfram eftir tvær umferðir af þremur en Írak og Kúveit eru úr leik.
Katar stendur best að vígi í hinum riðlinum en er þó í harðri keppni ásamt Sádi-Arabíu og Suður-Kóreu um tvö sæti í undanúrslitunum.
Dagur Sigurðsson er ekki á mótinu með lið Japan sem þurfti að hætta við þátttöku á síðustu stundu vegna fjölda kórónuveirusmita í hópnum.