Hrannar Guðmundsson hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar í handknattleik en hann tekur við af Rakel Dögg Bragadóttur sem hætti störfum fyrr í þessum mánuði.
Stjarnan hefur staðfest ráðningu Hrannars sem var aðstoðarþjálfari hjá Aftureldingu og starfaði áður hjá ÍR. Samningur hans er til hálfs þriðja árs, eða til sumarsins 2024.
Stjarnan er í fimmta sæti af átta liðum í úrvalsdeild kvenna, Olísdeildinni, með 10 stig eftir tólf leiki.