ÍBV vann öruggan sigur á Aftureldingu, 34:26, þegar liðin mættust í úrvalsdeild kvenna í handknattleik, Olísdeildinni, að Varmá í Mosfellsbæ í kvöld.
Eyjakonur komust í 6:1, Mosfellingar minnkuðu muninn í tvö mörk um tíma en ÍBV var sex mörkum yfir í hálfleik, 18:12. Afturelding lagaði stöðuna í 21:18 þegar tíu mínútur voru búnar af seinni hálfleik en þá náðu Eyjakonur að auka forskotið á ný og sigldu síðan öruggum sigri heim.
ÍBV er þá komið með 10 stig og komst að hlið Stjörnunnar í fimmta sætinu en Afturelding situr áfram í áttunda og neðsta sætinu, án stiga.
Harpa Valey Gylfadóttir skoraði 9 mörk fyrir ÍBV, Marija Jovanovic 7 og Sunna Jónsdóttir 5. Marta Wawrzykowska varði 13 skot.
Sylvía Björt Blöndal skoraði 7 mörk fyrir Aftureldingu og Katrín Helga Davíðsdóttir 5. Eva Dís Sigurðardóttir varði 14 skot.