ÍBV vann toppliðið á útivelli

Elísa Elíasdóttir átti flottan leik fyrir ÍBV í dag.
Elísa Elíasdóttir átti flottan leik fyrir ÍBV í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

ÍBV vann sinn fjórða leik í röð í Olísdeild kvenna í handbolta þegar liðið sigraði topplið Fram 26:24 í Framhúsi í dag.

Eyjakonur lögðu grunninn að sigrinum í fyrri hálfleik en staðan var 17:12 þegar honum var lokið. Fram reyndi að koma til baka í seinni hálfleik en það gekk ekki upp. Frábær sigur ÍBV því staðreynd en liðið hefur nú unnið fjóra leiki í röð í deildinni.

Harpa Valey Gylfadóttir var markahæst í liði ÍBV með sjö mörk en þær Elísa Elíasdóttir, Sunna Jónsdóttir og Karolina Olszowa komu næstar með fimm mörk hver. Þá átti Marta Wawrzynkowska frábæran leik í marki ÍBV en hún varði 18 skot. Hjá Fram var Ragnheiður Júlíusdóttir markahæst með sjö mörk og Harpa María Friðgeirsdóttir kom næst með fimm.

ÍBV er eins og áður sagði á miklu skriði en liðið situr í fimmta sæti með 12 stig eftir 11 leiki. Fram er ennþá með fimm stiga forskot á toppnum þrátt fyrir tap en Valur getur minnkað bilið seinna í dag þegar liðið mætir KA/Þór fyrir norðan.

Mörk Fram: Ragnheiður Júlíusdóttir 7, Harpa María Friðgeirsdóttir 5, Þórey Rósa Stefánsdóttir 3, Hildur Þorgeirsdóttir 3, Tinna Valgerður Gísladóttir 2, Erna Guðlaug Gunnarsdóttir 1, Kristrún Steinþórsdóttir 1, Emma Olsson 1, Karen Knútsdóttir 1.

Mörk ÍBV: Harpa Valey Gylfadóttir 7, Elísa Elíasdóttir 5, Sunna Jónsdóttir 5, Karolina Olszowa 5, Lina Cardell 2, Marija Jovanovic 2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert