„Stelpurnar voru virkilega virkilega góðar í dag“

Andri Snær í leiknum í dag.
Andri Snær í leiknum í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA/Þór vann góðan sigur á Val í Olís-deild kvenna í handbolta í dag. Norðankonur náðu mest níu marka forskoti en lokatölur urðu 28:23. Andri Snær Stefánsson var að vonum ánægður með sigurinn og kom í viðtal eftir leikinn. 

Þetta var góður leikur hjá ykkur í dag gegn sterku Valsliði. 

„Liðið sýndi frábæra frammistöðu og spilaði virkilega vel. Við settum mikla orku í varnarleikinn og vörnin var mjög góð lengstan hluta leiksins. Við náðum að stoppa Theu og gerðum það vel. Svo fengum við markvörslu, sem gaf liðinu aukið sjálfstraust. Í sókninni vorum við að spila vel og leikmenn voru ferskir. Við fengum framlag frá mörgum leikmönnum og stelpurnar voru virkilega virkilega góðar í dag.“ 

Er liðið að komast aftur í það horf sem var á því fyrir ári þegar allt var í toppstandi?  

„Við höfum verið að endurheimta leikmenn úr meiðslum og við höfum unnið vel í okkar málum. Við erum með okkar markmið og áherslur á hreinu hvernig við viljum spila. Frammistaðan í dag var góð en þó heilmargt sem hægt er að vinna í. Þessi sigur á að gefa okkur gott sjálfstraust þar sem Valur hefur spilað frábærlega í vetur. Þetta voru góð tvö stig.“ 

Rut Jónsdóttir fór hamförum í leiknum og skoraði að vild í seinni hálfleiknum. Er hún búin að ná sér að fullu? 

„Já, já. Það eru náttúrulega góðar fréttir fyrir okkur. Við ætlum að hafa okkar lykileikmenn heila og toppa á réttum tíma.“ 

Er það ekki það sem skiptir mestu máli? 

„Jú algjörlega. Þetta er búið að vera þannig tímabil hjá okkur að það var mikið álag með þátttöku okkar í Evrópukeppni. Það framkallaði meiðsli og þreytu í mannskapnum. Við náðum þ.a.l. ekki að halda úti eins góðum æfingum og við hefðum viljað. Nú er staðan betri þótt enn séu nokkrir leikmenn frá. Við eigum bara eftir að verða betri“ sagði Andri Snær að lokum 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert