Óskar Bjarni Óskarsson var við stjórnvölinn hjá Valskonum í dag þegar liðið sótti KA/Þór heim í Olís-deild kvenna í handbolta. Eftir jafnar upphafsmínútur tóku norðankonur völdin og unnu þær nokkuð þægilega 28:23.
Óskar Bjarni viðurkenndi að leikurinn hafi verið ansi erfiður og heimakonur einfaldlega að spila betur. „Þetta var fínt hjá okkur framan af og sóknin bara öflug. Svo kom smá hik hjá okkur og KA/Þór seig framúr. Sara Sif var að verja vel en við náðum ekki að þétta þetta nóg hjá okkur.
Í seinni hálfleiknum þá misstum við þær of langt frá okkur og þegar munurinn var orðinn sex, sjö mörk þá var þetta bara orðið erfitt. Við reyndum að spila sjö á sex en þetta var frekar þungt. Þetta var alls ekki okkar besta frammistaða. Við náðum aldrei að kreista fram mjög góða frammistöðu varnarlega og sóknarlega vantaði líka nokkuð upp á. Við vorum að spila töluvert betur fyrir jól.“
Deildin er þannig að það er hvergi á vísan að róa og liðin eru mörg góð og það þarf að hitta á góðan leik til að landa sigri.
„Deildin er virkilega sterk og mörg góð lið í henni. Það hefur sýnt sig að þegar kemur hikst og smá vesen þá geta liðin lent illa í því. Við vorum á svaka flugi fyrir jól. Nú þurfum við aftur að finna taktinn okkar og komast í gírinn. Það gæti alveg tekið sinn tíma. Við þurfum að fara að hala inn stig það er nokkuð ljóst.“
Nú hefur félagi þinn og aðalþjálfari liðsins, Ágúst Jóhannsson, verið víðs fjarri, eigum við að segja það. Þetta hlýtur að hafa sín áhrif.
„Já hann er náttúrulega úti, sem hluti af þjálfarateymi landsliðsins í Ungverjalandi. Það gefur því auga leið að ég tek þetta á mig“ sagði Óskar Bjarni kíminn. „Við vissum alveg að það yrði erfitt að vera án hans en við erum með gott teymi, reynda menn. Við erum með Dag Snæ, Hlyn Morthens og svo mig. Einnig eru miklir leiðtogar í hópnum. Það voru allir sammála því að gefa honum tækifæri á að hjálpa Guðmundi og Gunnari. Ég held að hann hafi staðið sig frábærlega eins og allt liðið og teymið. Allt fyrir Ísland, segjum við bara.
Það hefði nú samt verið þægilegra fyrir Ágúst að við hefðum safnað einhverjum stigum í fjarveru hans. Það eru brekkur alls staðar, bæði í leikjum og í deildinni. Við erum bara með þannig mannskap að við eigum að vinna okkur í gegnum þær“ sagði Óskar Bjarni að lokum.