Aron Pálmarsson landsliðsfyrirliði er áttundi launahæsti handknattleiksmaður heims en fær þó aðeins einn þriðja af því sem sá launahæsti og væntanlegur samherji hans þénar.
Samkvæmt samantekt Totalsportal ber Daninn Mikkel Hansen höfuð og herðar yfir aðra handboltamenn hvað laun varðar en hann er með 1,5 milljónir evra í árslaun, eða 216 milljónir íslenskra króna. Hann og Aron verða einmitt samherjar hjá Aalborg í Danmörku á næsta tímabili en Hansen leikur með París SG, rétt eins og sá næsttekjuhæsti, Frakkinn Nikola Karabatic.
Aron er með 500 þúsund evrur í árslaun samkvæmt Totalsport, eða um 72 milljónir króna. Það gerir sex milljónir króna í mánaðarlaun.
Hinn íslenskættaði Hans Óttar Lindberg er þriðji launahæstur samkvæmt þessu með 850 þúsund evrur í árslaun hjá Füchse Berlín í Þýskalandi.
Tíu efstu eru samkvæmt Totalsport eftirtaldir:
Mikkel Hansen, París SG, 1.500.000 evrur
Nikola Karabatic, París SG, 1.000.000 evrur
Hans Lindberg, Füchse Berlín, 850.000 evrur
Domagoj Duvnjak, Kiel, 800.000 evrur
Kristian Björnsen, Aalborg, 700.000 evrur
Luka Cindric, Barcelona, 700.000 evrur
Niklas Landin, Kiel, 650.000 evrur
Aron Pálmarsson, Aalborg, 500.000 evrur
Aleix Gómez, Barcelona, 500.000 evrur
Aitor Arino, Barcelona, 475 þúsund evrur
Rétt er að taka fram að um er að ræða tekjur viðkomandi bæði hjá félagsliði og fyrir þátttöku í landsleikjum.