Báðir leikir ÍBV og spænska liðsins Costa del Sol Málaga í átta liða úrslitum Evrópubikars kvenna í handknattleik verða leiknir á Spáni.
Handbolti.is greinir frá því að Vilmar Þór Bjarnason framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar ÍBV hafi staðfest að leikið verði í Málaga dagana 12. og 13. febrúar.
Eyjakonur hafa slegið út PAOK og Panorama frá Grikklandi og tékkneska liðið Sokol Písek út úr keppninni í vetur. Málaga er ríkjandi meistari eftir að hafa unnið Evrópubikarinn í fyrra en liðið er í fjórða sæti spænsku deildarinnar.