Handknattleiksdeild Hauka hefur kallað rétthentu skyttuna Guðmund Braga Ástþórsson aftur úr láni frá Aftureldingu eftir að hann lék fyrri hluta tímabilsins í Mosfellsbænum við mjög góðan orðstír.
Guðmundur Bragi, sem er 19 ára gamall, hefur farið á kostum hjá Aftureldingu á tímabilinu og er á meðal markahæstu leikmanna úrvalsdeildar karla, Olísdeildarinnar, með 77 mörk í 13 leikjum.
Er hann fjórði markahæsti leikmaður deildarinnar til þessa.
Á síðasta tímabili lék hann sömuleiðis á láni hjá Aftureldingu, en þá aðeins um mánaðar skeið frá febrúar til mars. Þrátt fyrir stuttan lánstíma lét hann einnig vel að sér kveða og skoraði 26 mörk í sex leikjum.
Í upphafi þessa árs var hann svo kallaður til baka úr öðru láni sínu hjá Aftureldingu og mun leika með Haukum það sem eftir er af yfirstandandi tímabili.
Þorgeir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Hauka, staðfesti þetta í samtali við mbl.is og sagði að ekki stæði til að lána Guðmund Braga aftur á þessu tímabili.