Karlalið Barein í handknattleik, sem Aron Kristjánsson þjálfar, laut í lægra haldi, 24:29, þegar það mætti Katar í úrslitaleik Asíumótsins í dag. Katar er þar með Asíumeistari fimmta skiptið í röð og Barein krækir í silfurverðlaun í fjórða sinn á síðustu fimm mótum.
Mikið jafnræði var með liðunum til að byrja með þar sem þau skiptust á að ná eins marks forystu.
Þegar líða tók á fyrri hálfleikinn fór Katar að ná betri tökum á leiknum, náðu tveggja marka forystu í skipti í honum þegar liðið komst í 11:9 og leiddi með þremur mörkum í leikhléi, 14:11.
Barein hóf síðari hálfleikinn af krafti og minnkaði muninn niður í eitt mark, 15:14. Eftir það skoraði Katar hins vegar fjögur mörk í röð, komst í fimm marka forystu og leit ekki til baka eftir það.
Undir lok leiks jók Katar forskot sitt í átta mörk þegar mest lét.
Barein lagaði hins vegar stöðuna í blálokin og Katar vann að endingu góðan fimm marka sigur.