Staðfest var í dag að danski handknattleiksmaðurinn Mathias Gidsel verði frá keppni næstu fjóra til sex mánuðina og hann leikur því ekki meira með danska toppliðinu GOG.
Gidsel er með slitið aftara krossband í hné. Þar sem um aftara bandið er að ræða en ekki það fremra, sem er mun alvarlegra, þarf hann ekki að fara í uppskurð og þar með er fjarvera hans metin fjórir til sex mánuðir.
Gidsel, sem fór á kostum með danska landsliðinu á EM og var valinn í úrvalslið mótsins sem örvhent skytta, hefur samið við Füchse Berlín fyrir næsta tímabil. Það er því ljóst að hann hefur leikið sinn síðasta leik með GOG sem er efst í dönsku úrvalsdeildinni og hefur unnið sextán leiki og gert eitt jafntefli í sautján leikjum, og er með átta stiga forystu á Aalborg á toppnum.
Þar sem úrslitin um danska meistaratitilinn ráðast í úrslitakeppni hefur þetta gríðarlega mikil áhrif á möguleika liðsins en Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörðurinn í úrvalsliði EM, er einnig leikmaður GOG.