Landin er betri en pabbi

Andreas Palicka (t.v.) með verðlaunaskjöldinn eftir að Svíar tryggðu sér …
Andreas Palicka (t.v.) með verðlaunaskjöldinn eftir að Svíar tryggðu sér Evrópumeistaratitilinn á sunnudag. AFP

Aston Palicka, sonur sænska markvarðarins Andreas Palicka, fór á kostum í sjónvarpsviðtali þegar Evrópumeistarar Svíþjóðar í handknattleik komu heim frá EM 2022 sem fór fram í Ungverjalandi og Slóvakíu.

Fréttamaður SVT spurði Aston hvað honum þætti um pabba sinn Andreas, sem fór á kostum í marki Svíþjóðar á mótinu. Aston svaraði um hæl:

„Hann er bestur í heimi. Eða næstbestur! [Niklas] Landin er betri, aðeins betri.“

Andreas skellihló og fréttamaðurinn spurði Aston þá hvort hann fengi að sofa heima í nótt.

„Að sjálfsögðu, heiðarleiki kemur manni langt í lífinu,“ svaraði Andreas þá.

Aston var ekki hættur að stríða föður sínum og stóðst ekki mátið þegar fréttamaðurinn spurði hann hvernig það væri að sjá pabba koma heim með gullmedalíu.

„Það er skrítið. Hann kemur venjulega alltaf heim með silfur- eða bronsmedalíu!“ sagði hann og Andreas hló aftur við og sagði að lokum:

„En nú erum við komnir með gullið!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert