Lilja heldur í atvinnumennsku

Lilja Ágústsdóttir í leik með Val gegn KA/Þór um síðustu …
Lilja Ágústsdóttir í leik með Val gegn KA/Þór um síðustu helgi. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Handknattleikskonan Lilja Ágústsdóttir hefur skrifað undir tveggja og hálfs árs samning við sænska úrvalsdeildarfélagið Lugi og heldur utan á morgun. Kemur hún frá uppeldisfélaginu Val.

Í tilkynningu frá handknattleiksdeild Vals kemur fram að Lilja hafi æft með Lugi milli jóla og nýárs og hafi strax vakið áhuga félagsins, sem setti sig í samband við Val með það fyrir augum að fá hana til liðs við sig eftir yfirstandandi leiktíð.

Hins vegar breyttust forsendur þegar vinstri hornamaður Lugi varð fyrir því óláni að meiðast. Þá hafi verið allt kapp lagt á að fá Lilju strax til Lugi og gæti hún spilað sinn fyrsta leik í sænsku úrvalsdeildinni strax á föstudaginn.

Hjá Lugi mun Lilja hitta fyrir eldri systur sína, Ásdísi Þóru Ágústsdóttur, sem gekk til liðs við félagið frá Val síðastliðið sumar. Ásdís Þóra er 19 ára og Lilja er 17 ára.

Ásdís Þóra Ágústsdóttir í leik með Val á sínum tíma.
Ásdís Þóra Ágústsdóttir í leik með Val á sínum tíma. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það verður eftirsjá af Lilju sem hefur staðið sig gríðarlega vel bæði með yngri flokkum félagsins sem og meistaraflokki undanfarin ár. Það er erfitt að kveðja leikmenn á miðju tímabili en félagið stendur þétt við bakið á þeim þegar svona tækifæri koma upp.

Yngri flokka starf félagsins er metnaðarfullt og erum við stolt að okkar leikmenn veki áhuga erlendra liða og séu tilbúin að taka næsta skref á sínum ferli,“ sagði í tilkynningunni.

Lilja og Ásdís Þóra eru dætur Ágústs Þórs Jóhannssonar, aðalþjálfara Vals og aðstoðarþjálfara kvennalandsliðsins.

Ágúst Þór Jóhannsson.
Ágúst Þór Jóhannsson. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert