Sveinn Aron til Kórdrengja

Sveinn Aron Sveinsson í leik með Selfossi á síðasta ári.
Sveinn Aron Sveinsson í leik með Selfossi á síðasta ári. Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Handknattleiksmaðurinn Sveinn Aron Sveinsson er genginn í raðir í Kórdrengja eftir að hafa jafnað sig á krossbandssliti.

Kórdrengir leika í næstefstu deild, Grill 66-deildinni, og því um mikinn liðstyrk að ræða enda býr Sveinn Aron yfir mikilli reynslu úr efstu deild þar sem hann lék lengi vel með Val og síðast með Selfossi.

Sveinn Aron lék lengst af með Val og varð til að mynda Íslands- og bikarmeistari með liðinu vorið 2017.

Hann var rekinn frá Val í nóvember 2019 eftir að hann var dæmdur í níu mánaða fangelsi, þar af sjö skilorðsbundna, fyrir alvarlega líkamsárás á Októberfest Háskóla Íslands í september 2017.

Hann samdi svo við Selfoss í október 2020 en sleit krossband í leik með liðinu fyrir tæpu ári síðan. Sveinn Aron hefur nú jafnað sig á meiðslunum og mun leika með Kórdrengjum út tímabilið.

„Sveinn Aron mun heldur betur styrkja okkar lið og hlökkum við til að sjá Svein á vellinum aftur,“ sagði í tilkynningu frá handknattleiksdeild Kórdrengja.

Kórdrengir eru í 7. sæti af 11 liðum í Grill 66-deildinni þar sem liðið er með 9 stig að loknum 12 leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert