Handknattleiksmaðurinn Sveinn Jóhannsson hefur leikið sinn síðasta leik fyrir danska félagið SönderjyskE. Þetta staðfesti hann í samtali við handbolta.is.
Sveinn, sem er 22 ára gamall, meiddist á hné á æfingu íslenska karlalandsliðsins í byrjun janúar í aðdraganda Evrópumótsins 2022 sem fram fór í Ungverjalandi og Slóvakíu.
Hann þurfti að draga sig úr landsliðshópnum af þeim sökum og verður frá næstu mánuðina.
„Hnéskelin fór úr lið og síðan þurfti að gera við brjóskskemmdir í leiðinni. Ég verð því miður frá keppni í sex mánuði,“ sagði Sveinn í samtali við handbolta.is.
Samningur Sveins við SönderjyskE rennur út í sumar og mun hann þá ganga til liðs við þýska 1. deildarfélagið Erlangen.