Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, var ekki sáttur með leik sinna kvenna er liðið tapaði með átta marka mun á móti ÍBV í Vestmannaeyjum í kvöld. Lokatölur voru 30:22 en ÍBV leiddi mest með ellefu marka mun 29:18.
„Það var margt sem fór úrskeiðis í dag, við byrjuðum leikinn vel og spiluðum 5-1 svolítið aggresíft á þær og mér fannst það ganga vel upp. Við vorum klaufar að vera ekki svona 3-4 mörkum yfir eftir 10-15 mínútur í staðinn fyrir það gerum við okkur sekar um ákveðin mistök og förum illa með færin,“ sagði Ágúst en staðan var 2:4 fyrir Valskonur áður en ÍBV skoraði næstu átta mörk.
„Síðan var frammistaðan engan vegin nógu góð, það var sama hvar á það var litið, varnarlega eða sóknarlega, það var þungt yfir þessu hjá okkur því miður. Á þessum kafla vorum við alltaf 4-5 mörkum undir en vorum einnig að klikka á vítaköstum og dauðafærum en dauðafæri eru mjög stór partur af handboltaleik, það þarf að klára þau til að vinna leiki.
Það er auðvelt að skýla sér alltaf á bakvið það en við því miður hittum illa á daginn og frammistaðan ekki nógu góð til að vinna jafn sterkt lið og ÍBV og í raun og veru ekkert lið í deildinni eins og við spiluðum,“ sagði Ágúst að lokum en hann segir seinkun á flugi liðsins til Vestmannaeyja ekkert hafa truflað liðið og að flugið hafi í raun bara verið nokkuð gott.
Valskonur hafa nú tapað síðustu fjórum leikjum í deildinni, Ágúst hefur verið mikið frá liðinu en hann var hluti af frábæru þjálfarateymi íslenska karlalandsliðsins sem lék á Evrópumeistaramótinu í síðasta mánuði.
„Það er búið að vera smá bras á okkur, við mætum í dag með ellefu leikmenn sem voru spilfærir, það er bæði covid og meiðsli. Það afsakar þó ekki það að mér finnst að frammistaðan hafi geta verið betri. Það er klárt mál að staðan er ekki eins og við hefðum viljað, ég er ekki að benda á neinn annan, það er alls ekki það.
Við erum búnar að vera í veseni, við höfum ekki getað æft nægilega vel, við vorum með leikmenn sem við lánuðum í byrjun janúar og í framhaldi að því missum við leikmenn í covid, einangrun og fleira. Leiðin liggur bara upp á við og ég hef trú á því að við munum koma sterkari til baka og vonandi náum við því bara í næsta leik.“
Liðið er enn í 2. sæti deildarinnar með 16 stig úr fyrstu 13 leikjunum, ÍBV og KA/Þór narta þó í hæla Valskvenna.
„Ég er alveg rólegur, það sem ég hefði viljað sjá í dag er heildarframmistöðuna aðeins betri, við spilum fínt í 15-17 mínútur en þar á eftir var þetta rosalega mikið stöngin út, sama hvort það var varnarlega, sóknarlega eða markvarslan. Við förum núna heim í hérað og skoðum þennan leik vel á morgun og æfum.
Við undirbúum okkur síðan að kostgæfni fyrir næsta leik á laugardag, við eigum marga leiki nú á stuttum tíma og þurfum að koma okkur í stand,“ sagði Ágúst að lokum en líklegt verður að teljast að hans leikmenn komi tvíefldir í næsta leik gegn Aftureldingu, sem hafa enn ekki unnið sér inn stig í deildinni.