Býst við frekara samstarfi

Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins.
Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Samningur Guðmundar Guðmundssonar, þjálfara karlalandsliðsins í handknattleik, rennur út í sumar. Guðmundur B. Ólafsson, formaður Handknattleikssambands Íslands, HSÍ, segir að viðræður muni brátt fara í hönd. „Staðan er þannig að samningurinn hans rennur út í júní og við eigum eftir að taka samtöl í framhaldi af Evrópumótinu, við eigum eftir að fara yfir mótið og ræða saman um framtíðina,“ sagði hann í samtali við Morgunblaðið.

Íslandi gekk vel á EM í Ungverjalandi og Slóvakíu og hafnaði í sjötta sæti eftir að hafa unnið fimm af átta leikjum sínum. Spurður hvort vilji væri fyrir áframhaldandi samstarfi sagði hann: „Já, ég geri ráð fyrir því. Við höfum haft þann hátt á að við förum yfir mótið og síðan ræðum við framtíðina.“

Næsta verkefni karlalandsliðsins verður í apríl þegar liðið mætir annað hvort Austurríki eða Eistlandi í tveimur leikjum, heima og að heiman, í umspili um laust sæti á HM 2023 í Svíþjóð og Póllandi. Heimavöllur Íslands, Laugardalshöllin, er ónothæfur um þessar mundir vegna framkvæmda auk þess sem höllin hefur verið á undanþágu hjá evrópska handknattleikssambandinu, EHF, undanfarin ár.

Aðeins hugsað um Ásvelli

„Höllin verður ekki tilbúin fyrr en í ágúst og því stefnum við að því að spila á Ásvöllum, við munum reyna að fá leyfi til þess að spila þar. Við höfum spilað kvennaleikina okkar þar að undanförnu og það hefur gengið vel. Við eigum í góðu samstarfi við Hauka og Hafnarfjarðarbæ sem eru að reka Ásvellina,“ sagði Guðmundur um stöðuna á heimavellinum.

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert