Sterkur í fyrsta leik eftir EM

Elvar Ásgeirsson var sterkur í fyrsta leik eftir EM.
Elvar Ásgeirsson var sterkur í fyrsta leik eftir EM. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Elvar Ásgeirsson, sem sló óvænt í gegn með Íslandi á EM í handbolta í síðasta mánuði, er mættur aftur til Nancy í Frakklandi.

Skyttan átti góðan leik gegn Limoges á heimavelli í kvöld og skoraði fimm mörk úr sjö skotum. Það dugði hinsvegar ekki til þar sem Limoges fagnaði 29:27-sigri í efstu deildinni.

Tímabilið hefur verið erfitt hjá Nancy því liðið hefur tapað níu leikjum í röð og er í botnsætinu með aðeins fjögur stig.

Þá átti Grétar Ari Guðjónsson flottan leik fyrir Nice er liðið tapaði fyrir Pontault á heimavelli í frönsku 2. deildinni, 20:25. Grétar varði 13 skot í markinu og var með 36 prósenta markvörslu. Nice er í áttunda sæti deildarinnar með 18 stig eftir 16 leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert