Rétt misstu af sæti í undanúrslitum

Elliði Snær Viðarsson skoraði tvö fyrir Gummersbach.
Elliði Snær Viðarsson skoraði tvö fyrir Gummersbach. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Gummersbach, sem leikur í þýsku 2. deildinni, rétt missti af sæti í undanúrslitum þýska bikarsins í handbolta í dag.

Liðið mætti þá 1. deildarliði Erlangen á heimavelli en varð að játa sig sigrað eftir mikinn spennuleik, 27:29.

Elliði Snær Viðarsson skoraði tvö mörk fyrir Gummersbach en Hákon Daði Styrmisson lék ekki með liðinu vegna meiðsla. Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar Gummersbach.

Gummersbach var í góðum málum í hálfleik en þá var staðan 16:12. Erlangen skoraði hinsvegar átta af fyrstu níu mörkunum í seinni hálfleik og breytti stöðunni í 20:17.

Gummersbach gafst ekki upp og tókst að jafna í 27:27 en Erlangen skoraði tvö síðustu mörkin og fer því í undanúrslit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert