Valur vann með 16 marka mun

Mariam Eradze var markahæst Valskvenna í dag.
Mariam Eradze var markahæst Valskvenna í dag. Ljósmynd/Óttar Geirsson

Valur átti ekki í neinum vandræðum með botnlið Aftureldingar þegar liðin mættust í úrvalsdeild kvenna í handknattleik, Olísdeildinni, í Mosfellsbænum í dag.

Valur stakk af snemma leiks og leiddi með átta mörkum í leikhléi, 17:9.

Gestirnir juku forystuna jafnt og þétt í síðari hálfleiknum og unnu að lokum afskaplega öruggan 37:21-sigur.

Mariam Eradze var markahæst Valskvenna með tíu mörk og skammt undan var Lovísa Thompson með níu mörk.

Markahæst í liði Aftureldingar var Sylvía Björt Blöndal með sjö mörk.

Saga Sif Gísladóttir og Sara Sif Helgadóttir, markverðir Vals, áttu báðar frábæran leik. Saga Sif varði 12 skot og var með rétt tæplega 43 prósent markvörslu og Sara Sif kom gífurlega sterk inn af varamannabekknum, varð sjö skot og var með 63,6 prósent markvörslu.

Valur er áfram í öðru sæti deildarinnar, nú með 18 stig, þremur stigum á eftir topplið Fram sem á þó leik til góða.

Á meðan er Afturelding áfram á botni deildarinnar án stiga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert