Topplið FH lenti ekki í neinum vandræðum með botnlið HK þegar liðin mættust í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Kaplakrika í kvöld.
Eftir nokkuð jafnræði til að byrja með náðu FH-ingar að slíta sig frá HK-ingum þegar fyrri hálfleikurinn var tæplega hálfnaður.
FH komst í 6:3, HK minnkaði muninn niður í eitt mark en FH-ingar skoruðu næstu þrjú mörk og munurinn þar með orðinn fimm mörk, 9:4.
Eftir það var ekki aftur snúið og leiddu heimamenn með sex mörkum í hálfleik, 17:11.
Í síðari hálfleik var talsvert jafnræði með liðunum til að byrja með, sem hentaði FH-ingum vel enda sex mörkum yfir.
Þegar líða tók á síðari hálfleikinn sigldu FH-ingar enn frekar fram úr og unnu að lokum feykilega öruggan níu marka sigur, 33:24.
Markahæstur í liði FH var fyrirliðinn Ásbjörn Friðriksson með sex mörk. Fast á hæla hans kom Einar Örn Sindrason með fimm mörk.
Markahæstir hjá HK og í leiknum voru hins vegar Kristján Ottó Hjálmsson og Hjörtur Ingi Halldórsson, báðir með átta mörk.
FH heldur toppsætinu með sigrinum þar sem liðið er nú með 22 stig eftir 14 leiki.
HK er áfram á botni deildarinnar með 1 stig eftir 13 leiki.