Haukar sigldu fram úr í blálokin

Hart tekið á Darra Aronssyni í kvöld.
Hart tekið á Darra Aronssyni í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Haukar unnu afar sterkan útisigur á Stjörnunni í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í kvöld og héldu þar með í við nágranna sína og erkifjendur í FH á toppi deildarinnar.

Heimamenn í Stjörnunni hófu leikinn af krafti og komust 2:5 snemma leiks. Haukar tóku þá vel við sér og skoruðu fjögur mörk í röð og komust þannig yfir, 6:5, í fyrsta skiptið í leiknum um miðbik fyrri hálfleiks.

Það sem eftir lifði hálfleiks var allt í járnum enda staðan í leikhléi jöfn, 13:13.

Í síðari hálfleik var áfram mjótt á munum enda náðu Haukar mest tveggja marka forystu líkt og í þeim fyrri.

Eftir æsispennandi baráttu lengst af í hálfleiknum reyndust gestirnir úr Hafnarfirði hlutskarpari undir blálokin og unnu að lokum frábæran fjögurra marka sigur, 33:29, eftir að hafa skorað síðustu fjögur mörk leiksins.

Brynjólfur Snær Brynjólfsson var markahæstur Hauka í kvöld með níu mörk.

Leo Snær Pétursson var þá markahæstur Stjörnumanna, einnig með níu mörk.

Haukar eru eftir sigurinn í öðru sæti deildarinnar, með 22 stig eftir 14 leiki líkt og FH en með lakari markatölu.

Stjarnan er áfram í fjórða sæti deildarinnar með 18 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert