Handknattleikssamband Íslands, HSÍ, hefur tilkynnt að tveimur leikjum í úrvalsdeild kvenna, Olísdeildinni, hafi verið frestað.
Um er að ræða toppslag Vals og Fram sem átti að fara fram í Origo-höllinni á Hlíðarenda annað kvöld, en þeim leik er frestað vegna kórónuveirunnar.
Hinum leiknum sem hefur verið frestað er leikur ÍBV og Aftureldingar sem átti að fara fram næstkomandi laugardag. Þeim leik er frestað vegna þátttöku ÍBV í Evróbikarnum.
Liðið á enda leik gegn spænska liðinu Costa del Sol Málaga í fjórðungsúrslitum keppninnar sama dag.
Leikjunum tveimur sem hefur verið frestað verður fundinn nýr leiktími fljótlega að því er kemur fram í tilkynningu frá HSÍ.